Hvernig er að burðast með sársaukapoka allt sitt líf?

Að finna til

Sársauki. Að finna til. Mín reynsla segir að ég lifi ekki hamingjusömu lífi með óuppgerðan sársauka. Ég skal reyna að útskýra hvers vegna. Ég hætti mér kannski á slóðir sem hef ekkert fræðilega vit á en, eins og alltaf, miða ég út frá eigin reynslu. Lengra nær minn sannleikur ekki.

Var svakalega hörundsár
Í æsku upplifði ég sársaukafullar tilfinningar. Líka margt ánægjulegt svo því sé haldið til haga. Í æasku upplifði ég andrúmsloft sem var oft undirlagt kvíða og ótta. Erfitt fyrir óþroskaðar barnsálir að þola. Ég varð því „krónískt“ smitaður og „veikur“ af kvíða og ótta sem strax barn.
Kvíðinn og óttinn fór illa með sjálfsmyndina. Ég var alltaf viðkvæmur fyrir gagnrýni. Saklaus stríðni frá félögunum gat farið með mig, ekki síst ef það voru stelpur nálægt! Ég upplifði mig niðurlægðan. Mér „mátti“ ekki mistakast. Þetta háði mér í samskiptum við aðra krakka svo um munaði. Blessunarlega slapp ég þó við einelti. Snemma lærði ég að leika „hlutverk“ sem pössuðu eftir aðstæðum. Lærði að fela viðbrögðin mín en gleymdi aldrei sársaukaum. Ég, líkt og önnur börn í minni stöðu, lærði að byrgja í mér vanlíðan og sársauka. Annað var ekki hægt. Það var eina leiðin til að „lifa af“! Ég þekkti ekkert annað, kunni ekkert annað og að svona ætti mér að líða! Eða vildi trúa því. Sársaukinn var settur í „poka“ sem ég bar með mér út í lífið. Án þess að átta mig á því!

„Pokaberinn“
Barn breytist í ungling. Sársauki og vanlíðan breyttist í reiði og gremju. Heima hjá mér einangraði ég mig og sleit nánast samskipti við aðra á heimilinu. Svaraði oftast í skætingi eða þagði. Þögnin var stundum mesti „hávaðinn“! Hrokinn varð mín vörn ef mér leið illa. Ekki að ég vildi það. Tók ekki eftir því. Ég var hrikalega „komplexaður“ unglingur en gerði allt til að enginn tæki eftir því.
Ég var heppinn að vera á kafi í íþróttum þar sem ég fékk mikla útrás fyrir vanlíðanina. Ég var allt annar karakter um leið og ég var kominn inn á fótboltavöll!
Eftir unglingsárin tók ég „pokann“ með mér út í lífið. Ég bar litla virðingu fyrir sjálfum mér. Með hrokann sem grímu óð ég áfram, en á bak við hana bara strákur með lélegt sjálfsálit, lága sjálfsvirðingu og lítið sjálfstraust. Ég kunni ekki að tjá mig, leið illa en vissi ekki af hverju, og gat ekki talað við neinn um það.

Fölsku töfralyfin..
Fljótt eftir að ég uppgötvaði deyfilyfið áfengi, fór ég að misnota það. Ásamt öðrum vímugjöfum. Þá tók djöfullinn sjálfur bólfestu í mér.
Mér leið aldrei vel og lokaði allt inn í mér. Ég fer ómeðvitað að særa fólk og vanvirða þeirra tilfinningar. Fór að sýna hegðun sem ég hafði orðið fyrir! Eingöngu af ótta við að vera særður sjálfur! Að vera helsærð manneskja þýddi að ég gat ekki opnað fyrir venjulegar tilfinningar. Ég var var sífellt að rekast á. Sífellt að klúðra málum. Klúðra vinnum. Klúðra námi.
Fyrstu fullorðinsárin voru eitt stórt klúður og ég sökk dýpra í fen vímuefna. Edrú leið mér ömurlega. Feiminn, hræddur og varla talandi. Var orðinn svo sjúklega „paranojaður“ að ég þorði ekki að svara í síma eða dyrabjöllu í marga daga eftir hvern „túr“. Upp úr tvítugu var ég kominn í þá stöðu að vera „enginn“ og gat „hvergi“ verið. Hvorki edrú né undir áhrifum. Það var ekki góður staður.

Upp úr „aumingjaskapnum“..
Á örfáum árum rústaði ég lífinu mínu og mér. Ungum tókst mér að hætta neyslu og taka „mig í gegn“. Mér tókst að öðlast eðlilegt líf. Ég áttaði mig aldrei að ég gekk öll þessi ár með „sársaukapoka“ æskunnar. Sjálfsagt vandist ég honum? Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin jukust mikið við það eitt að hætta neyslu og geta tekið þátt í lífinu. Það var samt alltaf stutt í sjálfsniðurrifið og ég var viðkvæmur fyrir gagnrýni. Var enn hörundsár. Kunni einfaldlega að fara betur með það. Þegar einhver segir við mig sem mér finnst ósanngjarnt, þarf ekki að vera alvarlegt, og ég velti mér upp úr því hvernig ég gæti svarað fyrir mig, þá er eitthvað að. Þá er andlega meinið mitt, sársaukinn og reiðin, að „störfum“. Ég set mig ósjálfrátt í hlutverk. Ég hef alltaf sagst vera meðvitaður og þóst vera það. Ábyggilega gat ég það en ekki alltaf. Samt hef ég í gegnum lífið náð að afreka það sem ég bjóst aldrei við að geta gert. Eftir að ég tók mig í gegnum hef ég átt miklu betra líf en ég bjóst við. Undir niðri „kraumaði sársaukinn“.

„Sársaukapokinn“ sprakk!
20 árum eftir að ég tók á mínu lífi braust sársauki barnæskunnar fram. Hafði burðast með hann öll þessi ár. Hefði verið æskilegast að ég hafi losað „innihaldið“ mörgum árum fyrr. Ég vissi ekki að ég þyrfti að gera það! Núna, rúmlega 2 árum síðar, hef ég farið í gegnum mestu svaðilför lífsins. Sumarið 2013 veikist ég af því sem er kallað „áfallastreituröskun“. Krónísk í mínu tilfelli. Um leið blossaði upp gamla meðvirknin, höfnunaróttinn og kvíðinn. Það helltist úr „pokanum“ en ég skildi ekki hvers vegna. En hrikalega sárt var það! Ég var að endurupplifa sársauka banæskunnar í gegnum ofsakvíða- og panikköst. Ég barðist svona áfram í 2 ár þar til ég og mitt var „molnað“. Á ögurstundu fékk ég hjálp s.l. haust. Það var upphafið að djúphreinsun á sálinni og er enn. Er samhliða að vinna úr meðvirkni og höfnunarótta. Þó það sé mjög sárt að losa „pokann“ þá fékk ég tækifæri í að vinna í mér til að verða betri manneskja, betri faðir og ekki síst að vera ég sjálfur.

Hvað svo?
Ég verð ekki fullominn og mun gera mistök. Er bæði ofvirkur og hvatvís. Það á eftir að koma illa fram við mig. Þannig er lífið. Ef ég finn fyrir kvíða og ótta þá býð þá „bræður“ velkomna.Tekst á við þá. Ekki leyfa „þeim“ að ná mér í reiði og gremju. Í dag veit ég hvernig á að takast á við málin. Ekki leyfa neinu að grassera í huganum. Mikilvæg leið fyrir mig er að gera daglega sjálfsskoðun. Koma strax auga á ef hef t.d. óafvitandi sært aðra manneskju. Þá fæ ég strax tækifæri að biðjast afsökunar. Lífið verður léttara.
Ég vil, eins og allir, vera hamingjusamur, glaður og frjáls. Mér stendur það til boða en það gerist ekki af sjálfu sér. Það tók mig áratugi að vinna úr erfiðum sársauka barnæskunnar. Í dag þakka ég fyrir að hafa náð að takast á við sársaukann og tækifærið í að endurskoða mig og mitt líf.

Ég vil stjórna hvernig mér líður!
Það er styrkleiki að láta ekki sársauka fortíðar eða framtíðar stjórna minni líðan. Það er frelsi sálarinnar. Hroki er gríma. Auðmýkt er einlægni. Þannig vil ég vera.
Ég sé sjá sjálfan mig, samskipti mín við aðra, og mín viðbrögð í nýju ljósi. Ég hef farið í gegnum mikið lærdómsferli sem er mér ómetanlegt.
Ég er í stöðu að ákveða hvað ég vil verða „þegar ég verð orðinn stór. Geri það sem mig langar að gera en ekki það sem ég þarf. Það eru forréttindi. Takk fyrir.