Örlaganna saga

Söguna alla verður að segja
um stríð sem er búið að heyja.
Þægilegast væri að þegja
en þá óttast hann að deyja.

Var hrímkalt kvöld þetta haust
er beint í hjartað örin skaust.
Andi Amors í hjartað braust
ástin tendruð fyrirvaralaust.

Rugluðu fljótt saman reitum
böðuð í rósum og ástarheitum.
Ástin tjáð með ástarskeytum
sem hélt hjörtum funheitum.

Um sumar fann fyrir ofsakvíða
og hræðslan fór líka að stríða.
Ritaði bréf því ekki mátti bíða
og lífið hélt svo áfram að líða.

Gat ekki vitað hann væri veikur
og höfnunaróttinn enginn leikur.
Á hörkunni hamaðist þó keikur
í hjarta sínu var mjög smeykur!

Var sekur um að segja ekki frá
en ótti við höfnun á honum lá.
Helvítis kvíðinn fór hann að hrjá
og ofsahræðslan greip hann þá.

Af hræðslu við höfnun þagði
af óttanum gripinn á augabragði.
Á lúmskan hátt kvíðinn hann lagði
lamaður vildi segja en guggnaði.

Hann vildi aldrei neinu að leyna
kvalinn af kvíða var að reyna.
Í neyð reyndi tímann að treina
í trú að þrífa samviskuna hreina.

Skiljanlegt að verða reið og sár
sérstaklega að liðið hafði heilt ár.
Hvernig er hægt að fella ei tár
og slíta heit líkt og eitt lítið hár?

Sakbitinn settist á næsta torg
í skömm, iðrun og ástarsorg.
Líf hans líkt og skotgrafin borg
er hægt að lifa af þessa sorg?

Vildir ekkert meira að ræða
væri ekkert á því að græða.
Blóm og bréfi náði að læða
þögnin lét hjarta hans blæða.

Fann kulda og kvöl daga langa
lét sársaukann yfir sig ganga.
Stöðug áföll átu alla hans anga
árasirnar tóku sál hans til fanga.

Köld kvíða- og hræðsluköst
krömdu sálina sem varð föst.
Lífið færði barnæskunnar löst
sár drengur tók út sín reiðiköst.

Fúlt að þurfa af dauða að þefa
þér Drottinn vildi líf sitt gefa.
Bað bænir en dró samt í efa
að kvöl drengsins myndi sefa.

Æðri máttur þá fyrir honum bað
hann sagði frá öllu hvað væri að.
Fárveikur tefldi á tæpasta vað
en tapaði og dæmdur fyrir það!

Örlög hans voru súrsæt saga
örvinglaður byrði tók að draga.
Réttlæti lífsins hélt þó til haga
sanngirnin líf hans hóf að laga.

Söguna er loks búið að segja
og ný stríð er farinn að heyja.
Söguna mun hann oft segja
því sár gróa ekki við að þegja.

Hver er ég?

Hver vill ekki a12188384_10207599996425208_682078555_nð „vera maður sjálfur“ í lífinu? Þurfa ekki að leika „hlutverk“ til að þóknast öðrum? Enn eitt sjónarhornið sem ég gat fundið úr minni veikindasögu.
Ég hafði fyrir því að eignast mitt „sjálf“ fyrir um 20 árum síðan. Þá á milli tvítugs og þrítugs að stíga upp úr mikilli óreglu. Ég vissi ekki hver ég var. Hafði leikið hlutverk til að þóknast öðrum frá því ég man eftir mér. Tapaði „sjálfinu“ mínu í barnæsku. Ég varð sjálfur að hafa fyrir að breyta mér og byggja upp mitt líf. En fylgdi leiðsögn sem ég fékk, og gekk vel í lífinu eftir það. Eignaðist á ný mitt „sjálf“!
Sumarið 2013 fæ ég einkenni sem ollu mér mikilli vanlíðan og hræðslu. Upplifði nokkur ofsakvíða- og panikköst. Grunaði fljótt að áföll og sársauki barnæskunnar byrjaði þá að „bíta í mig“. Ég reyndi að „skrifa mig frá þessu“ en gerði ekkert annað. Vissi ekki að ég var orðinn lífshættulega veikur. Þróaði veikindin ómeðhöndlað til loka ágúst 2015. Þá var ég greindur með króníska áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder – C-PTSD), kvíðaröskun (Anxious & panic disorder), meðvirkni og sjúklegan ótta við höfnun. Að auki hafði ég um þetta sumar „brunnið út“ (burnt out). Oft kallað „kulnun“. . Hef kynnst ýmsu í lífinu en aldrei upplifað aðra eins svaðilför! Svaðilför sem hafði hræðilegar afleiðingar á mig og mitt líf. Ein afleiðingin var að ég tapaði aftur mínu „sjálfi“. Eftir sambúðarslit í mars 2015, brást stíflan og ég varð í kjölfarið stefnulaust rekald. Fram að þessum tímapunkti hafði ég einhvern veginn náð að halda mér gangandi í vinnunni og á heimilinu. Veit ekki hvernig mér tókst það. En skyndileg sambúðarslit sprengdu „blöðruna“. Upplifði mig berskjaldaðan, óvarinn, hræddan og vonlausan. Staðan: Sambúðarslit, peningalaus, bíllaus, heilsulaus og húsnæðislaus. Afleiðing veikindanna. Ekki gott né fallegt.

Ég veit að mannlegur máttur minn réð ekki við veikindin mín. Ég reyndi mitt besta í 2 ár, til loka ágúst 2015. Þá greip almættið inn í sem leiddi mig að hjálpinni. Það munaði engu að það hefði verið of seint! Við höfum ekki öll skining á erfiðleikum eða veikindum annarra. Ég kynntist því og hafa mín veikindi skilið eftir djúp sár á sálinni. Það er grátlegt en lífið er ekki dans á rósum.
Hver er mín ábyrgð? Þó ég geti gert lista yfir atriði þar sem mér fannst ég beittur óréttlæti þá er það mér engin hjálp. Öðrum getur fundist annað en mér. Ergo. Ég ber ábyrgð að byggja upp mitt líf og öðlast á ný mitt „sjálf“. Líka að láta sár gróa. Enginn gerir það fyrir mig. Hjálpin er alltaf til reiðu en ég verð að bera mig eftir henni. Að sumu leyti er ég í sömu sporum og fyrir 20 árum en bý af þeirri reynslu. Veikindin núna lögðu
mig nær að velli en ég veit að ég get þetta í dag. Það er stórkostleg lí2c0295bd3c8b859af91ef969068c8867ðan.
Síðan í byrjun september 2015 hef ég klifið batastigann og borið ábyrgð á hverri tröppu. Stundum stokkið upp tvær tröppur eða dottið niður um eina. En er á uppleið. Við lendum oft í að kenna öðru eða öðrum um það sem miður fer. Það er vörn manneskjunnar við því óþægilega. Því miður er þessi brestur manneskjunnar frekar algengur og gerðist ég oft sekur um það hér áður. Ég gæti skrifað lærða ritgerð um þetta efni sem breytir engu hvað varðar mína ábyrgð.
Ef ég legg á mig til að komast til baka veit ég hvaða verðlaun bíða. Ég verð þroskaðri og betri manneskja. Reynsla, slæm og góð, er tækifæri til þroska. Ef það tekst er allur sársaukinn og erfiðið þess virði. Ég ber ábyrgð á eigin bata. Ekki þú. Lífið er skóli. Stundum fjári erfiður skóli. Þetta var ein af mínum kennslustundum. Erfið en lærdómsrík.
Takk fyrir.

Hvernig er að burðast með sársaukapoka allt sitt líf?

Að finna til

Sársauki. Að finna til. Mín reynsla segir að ég lifi ekki hamingjusömu lífi með óuppgerðan sársauka. Ég skal reyna að útskýra hvers vegna. Ég hætti mér kannski á slóðir sem hef ekkert fræðilega vit á en, eins og alltaf, miða ég út frá eigin reynslu. Lengra nær minn sannleikur ekki.

Var svakalega hörundsár
Í æsku upplifði ég sársaukafullar tilfinningar. Líka margt ánægjulegt svo því sé haldið til haga. Í æasku upplifði ég andrúmsloft sem var oft undirlagt kvíða og ótta. Erfitt fyrir óþroskaðar barnsálir að þola. Ég varð því „krónískt“ smitaður og „veikur“ af kvíða og ótta sem strax barn.
Kvíðinn og óttinn fór illa með sjálfsmyndina. Ég var alltaf viðkvæmur fyrir gagnrýni. Saklaus stríðni frá félögunum gat farið með mig, ekki síst ef það voru stelpur nálægt! Ég upplifði mig niðurlægðan. Mér „mátti“ ekki mistakast. Þetta háði mér í samskiptum við aðra krakka svo um munaði. Blessunarlega slapp ég þó við einelti. Snemma lærði ég að leika „hlutverk“ sem pössuðu eftir aðstæðum. Lærði að fela viðbrögðin mín en gleymdi aldrei sársaukaum. Ég, líkt og önnur börn í minni stöðu, lærði að byrgja í mér vanlíðan og sársauka. Annað var ekki hægt. Það var eina leiðin til að „lifa af“! Ég þekkti ekkert annað, kunni ekkert annað og að svona ætti mér að líða! Eða vildi trúa því. Sársaukinn var settur í „poka“ sem ég bar með mér út í lífið. Án þess að átta mig á því!

„Pokaberinn“
Barn breytist í ungling. Sársauki og vanlíðan breyttist í reiði og gremju. Heima hjá mér einangraði ég mig og sleit nánast samskipti við aðra á heimilinu. Svaraði oftast í skætingi eða þagði. Þögnin var stundum mesti „hávaðinn“! Hrokinn varð mín vörn ef mér leið illa. Ekki að ég vildi það. Tók ekki eftir því. Ég var hrikalega „komplexaður“ unglingur en gerði allt til að enginn tæki eftir því.
Ég var heppinn að vera á kafi í íþróttum þar sem ég fékk mikla útrás fyrir vanlíðanina. Ég var allt annar karakter um leið og ég var kominn inn á fótboltavöll!
Eftir unglingsárin tók ég „pokann“ með mér út í lífið. Ég bar litla virðingu fyrir sjálfum mér. Með hrokann sem grímu óð ég áfram, en á bak við hana bara strákur með lélegt sjálfsálit, lága sjálfsvirðingu og lítið sjálfstraust. Ég kunni ekki að tjá mig, leið illa en vissi ekki af hverju, og gat ekki talað við neinn um það.

Fölsku töfralyfin..
Fljótt eftir að ég uppgötvaði deyfilyfið áfengi, fór ég að misnota það. Ásamt öðrum vímugjöfum. Þá tók djöfullinn sjálfur bólfestu í mér.
Mér leið aldrei vel og lokaði allt inn í mér. Ég fer ómeðvitað að særa fólk og vanvirða þeirra tilfinningar. Fór að sýna hegðun sem ég hafði orðið fyrir! Eingöngu af ótta við að vera særður sjálfur! Að vera helsærð manneskja þýddi að ég gat ekki opnað fyrir venjulegar tilfinningar. Ég var var sífellt að rekast á. Sífellt að klúðra málum. Klúðra vinnum. Klúðra námi.
Fyrstu fullorðinsárin voru eitt stórt klúður og ég sökk dýpra í fen vímuefna. Edrú leið mér ömurlega. Feiminn, hræddur og varla talandi. Var orðinn svo sjúklega „paranojaður“ að ég þorði ekki að svara í síma eða dyrabjöllu í marga daga eftir hvern „túr“. Upp úr tvítugu var ég kominn í þá stöðu að vera „enginn“ og gat „hvergi“ verið. Hvorki edrú né undir áhrifum. Það var ekki góður staður.

Upp úr „aumingjaskapnum“..
Á örfáum árum rústaði ég lífinu mínu og mér. Ungum tókst mér að hætta neyslu og taka „mig í gegn“. Mér tókst að öðlast eðlilegt líf. Ég áttaði mig aldrei að ég gekk öll þessi ár með „sársaukapoka“ æskunnar. Sjálfsagt vandist ég honum? Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin jukust mikið við það eitt að hætta neyslu og geta tekið þátt í lífinu. Það var samt alltaf stutt í sjálfsniðurrifið og ég var viðkvæmur fyrir gagnrýni. Var enn hörundsár. Kunni einfaldlega að fara betur með það. Þegar einhver segir við mig sem mér finnst ósanngjarnt, þarf ekki að vera alvarlegt, og ég velti mér upp úr því hvernig ég gæti svarað fyrir mig, þá er eitthvað að. Þá er andlega meinið mitt, sársaukinn og reiðin, að „störfum“. Ég set mig ósjálfrátt í hlutverk. Ég hef alltaf sagst vera meðvitaður og þóst vera það. Ábyggilega gat ég það en ekki alltaf. Samt hef ég í gegnum lífið náð að afreka það sem ég bjóst aldrei við að geta gert. Eftir að ég tók mig í gegnum hef ég átt miklu betra líf en ég bjóst við. Undir niðri „kraumaði sársaukinn“.

„Sársaukapokinn“ sprakk!
20 árum eftir að ég tók á mínu lífi braust sársauki barnæskunnar fram. Hafði burðast með hann öll þessi ár. Hefði verið æskilegast að ég hafi losað „innihaldið“ mörgum árum fyrr. Ég vissi ekki að ég þyrfti að gera það! Núna, rúmlega 2 árum síðar, hef ég farið í gegnum mestu svaðilför lífsins. Sumarið 2013 veikist ég af því sem er kallað „áfallastreituröskun“. Krónísk í mínu tilfelli. Um leið blossaði upp gamla meðvirknin, höfnunaróttinn og kvíðinn. Það helltist úr „pokanum“ en ég skildi ekki hvers vegna. En hrikalega sárt var það! Ég var að endurupplifa sársauka banæskunnar í gegnum ofsakvíða- og panikköst. Ég barðist svona áfram í 2 ár þar til ég og mitt var „molnað“. Á ögurstundu fékk ég hjálp s.l. haust. Það var upphafið að djúphreinsun á sálinni og er enn. Er samhliða að vinna úr meðvirkni og höfnunarótta. Þó það sé mjög sárt að losa „pokann“ þá fékk ég tækifæri í að vinna í mér til að verða betri manneskja, betri faðir og ekki síst að vera ég sjálfur.

Hvað svo?
Ég verð ekki fullominn og mun gera mistök. Er bæði ofvirkur og hvatvís. Það á eftir að koma illa fram við mig. Þannig er lífið. Ef ég finn fyrir kvíða og ótta þá býð þá „bræður“ velkomna.Tekst á við þá. Ekki leyfa „þeim“ að ná mér í reiði og gremju. Í dag veit ég hvernig á að takast á við málin. Ekki leyfa neinu að grassera í huganum. Mikilvæg leið fyrir mig er að gera daglega sjálfsskoðun. Koma strax auga á ef hef t.d. óafvitandi sært aðra manneskju. Þá fæ ég strax tækifæri að biðjast afsökunar. Lífið verður léttara.
Ég vil, eins og allir, vera hamingjusamur, glaður og frjáls. Mér stendur það til boða en það gerist ekki af sjálfu sér. Það tók mig áratugi að vinna úr erfiðum sársauka barnæskunnar. Í dag þakka ég fyrir að hafa náð að takast á við sársaukann og tækifærið í að endurskoða mig og mitt líf.

Ég vil stjórna hvernig mér líður!
Það er styrkleiki að láta ekki sársauka fortíðar eða framtíðar stjórna minni líðan. Það er frelsi sálarinnar. Hroki er gríma. Auðmýkt er einlægni. Þannig vil ég vera.
Ég sé sjá sjálfan mig, samskipti mín við aðra, og mín viðbrögð í nýju ljósi. Ég hef farið í gegnum mikið lærdómsferli sem er mér ómetanlegt.
Ég er í stöðu að ákveða hvað ég vil verða „þegar ég verð orðinn stór. Geri það sem mig langar að gera en ekki það sem ég þarf. Það eru forréttindi. Takk fyrir.